Tuesday, October 03, 2006

Komin heim

Komið þið sæl og takk kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar, mann vöknaði bara um augun við að lesa allar kveðjurnar!
Við komum heim í gær eftir frábæra dvöl á sjúkrahúsinu á Húsavík þar sem stjanað var við okkur. Það er hins vegar alltaf gott að komast heim og eyddum við deginum í að koma okkur vel fyrir í herberginu okkar. Litlu prinsessunni líður vel hér heima, svaf meiri að segja í fimm tíma samfleytt í nótt:) Hilmar og Andrea eru voðalega góð við hana en við þurfum nú samt að vera vel á verði því þau geta verið ansi harðhent. Hilmar vaknaði í nótt þegar ég var að gefa henni og klappaði henni og strauk, voða, voða góður stóri bróðir. Að vísu var hann svo uppgefinn eftir daginn að hann sofnaði klukkan sjö yfir Ávaxtakörfunni. Ég var því ansi hrædd um að hann myndi vaka lengi í nótt þegar hann vaknaði en sem betur fer var hann alveg tilbúinn til að halda áfram að sofa þegar ég var búin að gefa.
Ég ætla að setja inn smá fæðingarsögu fyrir þá sem áhuga hafa á svoleiðis löguðu, viðkvæmar sálir hættið því að lesa núna:)
Þessi fæðing, eða aðdragandi hennar, var með allt öðru sniði en þegar ég átti Hilmar. Ég var búin að vera með óreglulega verki í nokkra daga og var alveg orðin rugluð, vissi ekkert hvort eitthvað væri að fara að gerast eða ekki. Það var frekar óþægilegt því eins og þið vitið þurftum við að keyra í klukkustund inn á Akureyri til að eiga og mér heyrðist Pési helst ekki vilja taka á móti í Víkurskarðinu. Aðfaranótt 28. sept. vaknaði ég með smá verki um tvö leytið. Ég náði mér í blað og penna og fór að skrifa niður. Verkirnir voru ekki harðir og komu á bilinu 8-15 mínútna fresti. Klukkan sex ákváðum við að skreppa inneftir og láta skoða mig, en bjuggumst allt eins við að fara heim aftur. Við komum svo inn á fæðingardeild rétt rúmlega sjö og við skoðun kom í ljós að ég var með þrjá í útvíkkun og töldu þær að það vantaði bara herslumuninn að ég færi að stað. Þær hreyfðu við belgnum og buðu mér að leggja mig í klukkustund og sjá hvað myndi gerast. Við fengum þessa fínu stofu með tveimur rúmum og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar að ná okkur í smá kríu, en nei Pési mátti ekki leggja sig í hitt rúmið en fékk þennan líka ,,mjúka" eldhúskoll til að láta fara vel um sig á:) Nú eftir rúma klukkustund var ég sett í monitor en eitthvað lítið virtist hafa gerst en töldu þær samt líklegt að það væri orðið stutt í þetta. Við ákváðum því að skella okkur í verslunarferð í bæinn, gengum m.a. frá pöntun á klæðningu á húsið, skoðuðum glugga og versluðum sitt hvað í bílinn og fleira. Við sem sagt notuðum ferðina:)
Seinni partinn fórum við svo í heimsókn til Jónasar og Söru og sátum við hjá þeim til klukkan níu um kvöldið en þá voru verkirnir farnir að verða harðari og þéttari. Við skelltum okkur því upp á deild en þar sem öll herbergi voru yfirfull fengum við að dúsa inn í sjónvarpsherbergi með fullt af konum með litlu börnin sín í rétt um klukkustund. Ég verð nú að viðurkenna það að mér leið hálfasnalega að vera með þvílíku hríðirnar í kringum allar þessar nýbökuðu mæður og það var ekki laust við að ég sæi vorkunnarsvipinn í augum þeirra, enda höfðu þær orð á því hvort það ætti ekkert að fara að gera fyrir mig. Rétt um 22:30 fengum við svo að fara inn í undirbúningsherbergið og klukkan 23:00 kom yndisleg ljósmóðir á vakt sem fékk þá snilldarhugmynd að láta mig í heitt bað, vááá hvað það var ljúft. Þar náði ég þvílíkri slökun og útvíkkunin rauk upp í 8 á smástund. Um miðnætti var mér svo dröstlað upp úr baðinu, þvert á mínar óskir, og litla daman fæddist svo klukkan 01:15. Þessi klukkustund var assskoti lengi að líða og er ég staðráðin í að heimta að fá að eiga í baði næst!
Sem sagt í stuttu máli sagt gekk fæðingin vel, mun hraðar fyrir sig en þegar ég átti Hilmar. Þannig að endilega sleppið því bara að eiga barn nr. 1 og skellið ykkur beint í barn nr. 2:)
Jæja ætli að ég verði ekki að fara að sinna húsverkum, hengja upp þvott og svoleiðis. Nóg að gera á stóru heimili!
Hafið það gott, við setjum inn fleiri myndir seinna í dag. Enn og aftur takk kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar. Kv. Helga

12 Comments:

Blogger hilmartor said...

Gleymdi ,,skemmtilegusta" partinum í sögunni. Þegar ég var búin að eiga fengum við að ,,sofa" í undirbúningsherberginu því hvergi var pláss fyrir okkur. Undirbúningsherbergið er við hliðina á fæðingarstofunni og viti menn þegar ég var við það að festa svefn hófst önnur fæðing hinum meginn við vegginn. Það má því segja að ég hafi upplifað tvær fæðingar þessa nótt og var það hálfundarleg tilfinning sem greip mig, blanda af feginleika yfir því að vera búin í bland við að finna þvílíkt til með greyið konunni. Það má því segja að ég hafi verið MJÖG fegin að komast í rólegheitin á Húsavík til að ná upp svefni:) Það var líka alveg frábært að Pési fékk að vera með mér þar allan tímann, mæli með Húsavík!
kv. Helga

9:50 AM  
Anonymous Anonymous said...

Blessuð og sæl Helga mín og innilegar hamingjuóskir með þessa fjallmyndarlegu stúlku. Kærar kveðjur frá Guðnýju Svavars
PS. Kannast við sömu upplifun og þú minnist á í "skemmtilegasta partinum. G

11:31 AM  
Anonymous Anonymous said...

Gott að þetta gekk vel. Við könnumst við svona að það sé ekki plás fyrir mann Siggi var ekkert að bíða, það náðist ekki að tralla mér inn á fæðinastofu svo að hann kom í skoðunarherbergi,bara gaman af því (núna).
Hún er æðisleg, það er svo falleg myndin af ykkur mæðgum þegar þið eruð báðar sofandi.
Risa knús Vala

12:14 PM  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

Gott að allt gekk vel elsku vinkona. Ég las fæðingarsöguna með áfergju og vona ég skv. þér að allt muni ganga hraðar hjá mér líka:)
Velkomin heim og ég vona að þú náir að taka því aðeins rólega þó að heimilið sé stórt.

1:48 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég get staðfest það að litla dísin er einstaklega vel heppnuð og það var æðislegt að fá að máta hana. Fegin að ég uppgötvaði þessa síðu þannig að við hjónin (eitthvað annað en þið gemlingarnir) getum fylgst með frá útlandinu.
Kossar og knús, Þóra (og Völli sem trúir því að sársauki sé huglægur)

1:54 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gaman að fá pistil frá þér Helga. Hún er alveg æðisleg. En ég öfunda þig ekki að taka þátt (þannig séð) í annari fæðingu rétt eftir að eiga sjálf.
Frábært að það var gott að vera á Húsavík :)
Knús og kossar frá mér og klinginu í eggjastokkunum, hehe :)

2:25 PM  
Anonymous Anonymous said...

Greinilegt að allt gekk vel fyrst þú ert farin að tala um fæðingu 3 strax í sömu viku og daman fæðist :)
Gaman að sjá allar þessar myndir, hún er algjört yndi!!!
Kveðja,
Kristín

5:08 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ hæ, gott að heyra að allt gekk vel og samkvæmt mínum bókum gengur nr 3 betur og svo enn betur nr 4 og þá er betra að hætta !!! Hún er voða falleg litla snúllan og Hilmar Þór greinilega hjálplegur sem er bara jákvætt. Gangi ykkur bara sem best. Kveðja Þórhalla og co.

8:58 PM  
Anonymous Anonymous said...

halló stóra fjölskylda!
Takk fyrir fæðingarsöguna Helga :-) Gaman að skoða fleiri myndir af Hilmari og litlu sys! Ég væri til í að liggja á Húsavík...... Það var alla vega ekki svona gaman að liggja í Rvík! ;-)
bestu kveðjur - Þórey

5:19 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ kæra fjölskylda og innilega til hamingju með litlu dömuna. Hún er alveg ótrúlega myndarleg maður sér alveg smá svip með þeim sistkynum. Ég sé að stóri bróðir stendur sig bara rosa vel. Ég er alveg sammála með fæðingu númer 2 það er bara ekki hægt að líkja þessu saman, tóm rólegheit og þægindi.
kv. frá Hrísbraut 12

9:52 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ Hæ Helga og fjölskylda. Innilega til hamingju með litlu prinsessuna, hún er algjört æði. Gangi ykkur áfram vel í sveitinni. Kær kveðja úr Hafnarfirðinum Sigrún Ólöf

11:05 PM  
Blogger hilmartor said...

Takk kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar og hlýju straumana sem þið hafið verið að senda til okkar. Þið eruð frábærar:)kv. Helga

11:17 PM  

Post a Comment

<< Home