Thursday, January 11, 2007

Staðan í sveitinni

Komið þið sæl og blessuð. Nú er komið að enn einu blogginu um lífið og tilveruna í sveitinni. Dagurinn í dag var einn af þeim bjartsýnu hvað varðar framkvæmdirnar í Nesi þannig að ég get gengið að því vísu að á morgun verð ég í svartsýnisgírnum. Ég skellt mér í vinnugallann og myndaðist við að skafa kítti af gluggunum í húsinu okkar í dag og þá fylltist ég eldmóði og óskaði þess helst að geta sett börnin á ,,hold" í nokkrar klukkustundir svo ég gæti klárað og flutt inn. Það er víst ekki þannig sem það virkar (sem betur fer) og eftir tveggja tíma törn var Arndís Inga alveg búin að fá nóg af Ester Ósk guðmóður sinni (og öfugt:) þannig að ég skellti mér heim í brjóstagjöfina:) Pési og Kolli héldu hins vegar áfram og nú held ég að ég geti sagt að niðurrifi sé lokið (þó ég hafi oft sagt það áður:) og tími uppbyggingarinnar hafinn!
Við fórum með Arndísi Ingu í skoðun inn á Akureyri á mánudaginn, full bjartsýni á að nú myndi hún losna við blessaða spelkuna, en því miður urðum við frekar svekkt. Vinstri mjöðmin er ekki orðin alveg nógu góð þannig að hún fékk annan tíma 12. febrúar og nú leggjumst við bara á bæn um að það verði dagurinn sem hún losni við spelkuna. Annars veit ég að ég á ekki að vera að vorkenna okkur því auðvitað er þetta bara smávægilegt sem er að og gæti sko verið miklu verra!
Úr því að við vorum komin í höfuðstaðinn skelltum við okkur í Byko og eyddum svona rétt u.þ.b. milljón krónum. Það er svona þegar maður er með alla vasa fulla af seðlum og veit barasta ekkert hvað maður á að gera við þá:) Við pöntuðum okkur parket, flísar, vatnslagnir, hurðir, ljós og málningu en vorum samt svekktust með að takast ekki að finna okkur húsgögn á útsölu í leiðinni. Það lítur því allt út fyrir það að ég verði að skella mér í borgina til að finna þau!
Marinó gerir þvílíkt grín að okkur fyrir eyðslusemina, segir að laxakóngurinn eigi svo mikið af peningum og að við förum ekki af bæ nema takast að eyða a.m.k. einni milljón:) Já það er svona, ætli að laxakóngurinn verði ekki að sætta sig við hafragraut og hrökkbrauð það sem eftirlifir árs á meðan við erum að rétta blessaðan fjárhaginn við, þá verður nú gott að vita af Marinó á neðri hæðinni ávallt með eitthvað gott í pottunum handa okkur:)
Jæja ætli að ég hætti ekki þessu blessaða bulli og fari að sofa í hausinn á mér. Hafið það gott og endilega látið mig vita ef þið sjáið flott húsgögn á útsölu sem ég get keypt.
kv. Helga

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Já það er gott að eiga nóg af peningum þegar búðaferðirnar kosta 1 milljón. En þið eruð ótrúlega heppin að hafa svona góðan granna á neðri hæðinni sem veður örugglega með steikur vikulega handa ykkur í hafragrautsátinu. kv. Bára

11:30 PM  
Anonymous Anonymous said...

Úr því þið eigið svona mikla peninga:) þá segi ég að þið skellið ykkur hingað til mín, kaupið ykkur húsgögn hér,flytjið þau heim og á meðan þið eruð á búðarrápi þá skal ég elda mikinn og góðan mat fyrir ykkur! Díll?

2:23 AM  
Anonymous Anonymous said...

Hér eigum við alveg fyrir smá framkvæmdum,en bóndinn er alltaf í vinnunni og skítþreyttur um helgar,svo ekkert kemst í verk....... Þurfum bara að skipta aðeins,senda Össa að vinna fyrir seðlum fyrir ykkur og Pésa í framkvæmdir hjá mér ;) Já takk!!

1:05 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ Helga mín.
Guð hvað ég hlakka til að fara eyða svona og geta farið að sjá eitthvað gerast í verðandi húsinu mínu. En það er frábær útsala í Ego Dekor og í Tekk. 30 - 70 % afsláttur. Ætlaði einmitt að fara kaupa mér skenk og borðstofuborð + stóla en fattaði að ég hef ekki geymslu undir hlutina. Útsala aftur þarna í ágúst og þá fer ég að spreða, híhí.
Knús og kossar, Elsa Lára

3:49 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ, hæ!
Já, það er alltaf gamana að eyða peningum! En mér hefur bara tvisvar tekist að eyða milljón eða meira í einu! Íbúð og svo bíl. Spurning um að ég sæki um vinnu í veiðiheimilinu??? Er ekki líka fullt af sætum veiðimönnum sem koma ;-)
En gangi ykkur vel í húsinu!
Kv. Ingunn
Selfossi

6:25 PM  

Post a Comment

<< Home