Friday, July 21, 2006

Loksins nýtt blogg úr sveitinni

Afsakið letina lesendur góðir, ef þið eruð ekki allir löngu hættir að gera ykkur ferð inn á síðuna. Ég fatta það núna í þessum töluðu orðum að við höfum ekki tekið upp myndavélina til að smella af myndum af Hilmari síðan við komum í sveitina, þegar þessari færslu er lokið ætla ég því að finna græjuna og smella alveg villt og galið!
Annars hefur ýmislegt gerst síðan ég skrifaði síðast. Við hjónaleysin búin að skella okkur í sólina til Spánar, búin að fara í brúðkaup aldarinnar þar sem Pési fór á kostum í hlutverki veislustjóra (og talaði eins og gæs að mati sumra veislugesta:), búin að standsetja veiðiheimilið með hjálp Báru og Ásu og búin að hafa meira en nóg að gera. Ég vann í eldhúsinu í hálfan mánuð og Pési bjóst við því að vera laus fyrir það mesta til að vera með Hilmari. Raunin varð hins vegar önnur því Pési þurfti að guida næstum því allan Íslendingatímann þannig að Hilmar greyið þvældist með okkur í Veiðiheimilinu alla daga. Við komumst að því að við eigum alveg roooosalega ,,þægilegt" barn því hann var þvílíkt góður og hjálpsamur. Ég byrjaði á því að flytja hálfan dótakassann með okkur en komst fljótlega að því að honum fannst lang skemmtilegast að fá að hjálpa okkur við eldamennskuna, baksturinn og uppvaskið. Við skelltum því bara svuntu á hann og þá var hann fínn!
Núna er ég hins vegar komin í frí og við mæðginin hjólum hringinn með ánni daglega til að leita að ,,pabba" okkar, skellum okkur í sund (sem er um það bil það skemmtilegasta sem Hilmar Þór gerir) og hvílum okkur í sveitinni. Svo bíðum við bara eftir vikufríinu sem pabbi fær um mánaðarmótin og þá skellum við okkur vonandi eitthvert í smá útilegu.
Annars fórum við Hilmar og Ása inn á Akureyri í dag. Þar fór ég í sónar og Hilmari fannst voða skrítið að sjá litla barnið í ,,sjónvarpinu", síðan skelltum við okkur í nokkrar búðir og að lokum í langþráða sundferð. Þar sem hvorki Bára frænka né pabbi voru nálægt urðum við Ása að taka að okkur að fara með litlamann í rennibrautina. Við kviðum þessu báðar en sem betur fer skynjaði Hilmar Þór ótta okkar og sagðist hafa verið hálfhræddur eftir ferð númer tvö þannig að hann vara alveg sáttur við að halda sig bara í barnalauginni:)
Annars lenti Hilmar greyið í ansi óskemmtilegri lífsreynslu í vikunni þar sem hann lék sér við Þráin Maríus frænda sinn á pallinum niðri í garði. Þráinn stökk niður pallinn og vakti við það geitunga sem höfðu hreiðrað vel um sig undir honum. Hilmar Þór sem fylgdi í humátt á eftir frænda sínum vissi ekki fyrr en hann stóð í skýi af geitungum sem allir vildu ,,kyssa" hann. Hann fékk tvær stungur og grét mikið. Ég hef verið að reyna að gera þetta ekki að mjög skelfilegri minningu með því að segja honum að flugurnar hefðu bara viljað kyssa hann, það hefur virkað ágætlega! í kvöld kom svo meindýraeyðir og fjarlægði búið þannig að það er aldrei að vita nema við skellum okkur í garðinn á morgun og tjöldum tjaldinu sem ég keypti handa erfðaprinsinum í Byko í dag.
Jæja ætla að fara að sofa. Vonandi hafið þið, kæru vinir, ekki allir snúið við okkur baki. Endilega kommentið eitthvað á þessi skrif mín, það er svo gaman! (Og Svanfríður ég er alveg að fara að hringja í þig)
Kveðja Helga og co.

5 Comments:

Anonymous Anonymous said...

vaaaaaá ... loksins komin með alvöru net eða hvað ??

2:26 AM  
Blogger hilmartor said...

jebb loksins! Nú bíð ég bara eftir því að tækniundrið bróðir þinn finni Skjá einn líka:)

11:07 AM  
Anonymous Anonymous said...

hæ hæ! Loksins loksins kom eitthvað inn. Ég var alveg hætt að kíkja, bíð spennt eftir nýjum myndum. Er komin í afmæliskaffi til Ingunnar. Bið að heilsa. Bára besta.

3:05 PM  
Blogger hilmartor said...

Biðjum fyrir afmæliskveðjur til Ingunnar. Ætlið þið ekki að skella ykkur norður í sólina til okkar?

4:41 PM  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

Ég kom reglulega inn og varð því mikið glöð að sjá ný skrif. Ég var úti í garði í dag að taka til eftir storminn svo ég heyrði ekki í símanum. Ég held að ég verði í fríi í byrjun næstu viku svo endilega heyrðu í mér því það er orðið allt of langt síðan síðast:)

4:08 AM  

Post a Comment

<< Home