Tuesday, February 26, 2008

Kominn tími á blogg?

Sælt veri fólkið. Ætli að það sé ekki orðið tímabært að henda hér inn nokkrum línum. Í fréttum er þetta helst að Hemmi og Edda voru að eignast dóttur fyrir nokkrum mínútum síðan, INNILEGA TIL HAMINGJU! Vonandi er þeim sama þó ég upplýsi þetta hér. Ég veit ekki hvort ég sé skrýtin en þegar ég heyri um fæðingar í fjölskyldunni missi ég mig bara alveg, tárast og fæ gæsahúð. Ekki batnar það svo þegar ég sé myndir af börnunum! Ég var ekki svona áður en ég átti mín börn en ætli að maður breytist ekki bara við það að eignast börn sjálfur því þá sér maður hve mikið kraftaverk þetta er! Hvað segið þið um þetta mál?

Annars eru Bára, Sammi og Sandra Sif úti á Tenerife núna, væri sko alveg til í að vera þar með þeim. Mér skilst á Báru að Sandra Sif fíli sig alveg í botn í kerrunni sinni og harðneiti að sofa á daginn svo hún missi nú ekki af neinu. Ég held að ég ákveði það hér með að skella mér í sólina að ári! Það er alveg hreint með ólíkindum hvað sólin getur lappað upp á sálartetrið á manni og ég viðurkenni það að mig er aðeins farið að lengja eftir henni.....en nú fer vorið að koma þannig að það fer að lagast:)

Annars hefur verið nóg að gera í vinnunni. Erum á fullu í hópastarfi þessa dagana þar sem nemendum er skipt í 9 hópa og allir að gera allskyns skemmtileg verkefni. Ég var nú að vísu hálfþreytt eftir daginn í dag því svona vinna tekur á en er um leið mjög skemmtileg. Við vonumst til að klára verkefnin á morgun þannig að þá róast hjá okkur.

Ég og Hilmar Þór skelltum okkur í messu á sunnudaginn. Hilmar Þór var voða prúður og stilltur, tók virkan þátt í messunni með því að herma eftir hreyfingum prestsins og þegar messunni lauk kom presturinn og tók í höndina á honum og sagði að hann væri voðalega góður strákur og það væri gaman að hann skyldi koma í kirkjuna. Hilmar Þór var voðalega ánægður og þegar hann kom heim fór hann rakleitt til pabba síns og sagði: ,, Guð sagði að ég væri góður strákur og sagði að það væri gaman að ég skyldi koma í kirkjuna" . Við urðum því að fara í gegnum smá útskýringar á þessu öllu saman:)

Jæja ætli að ég láti þetta ekki duga í bili.

Þar til næst (hvenær sem það verður) hafið það gott.

kv. Helga

11 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Hæ.
Til hamingju með litlu skvís. Var einmitt að hugsa til Eddu í dag en þá sá ég bílinn þeirra fyrir utan SHA.
Ekki enn búið að fjalla neitt um skóladagatal hjá mér en það verður öruggleg fljótlega :)
Heyrumst, Elsa Lára.

8:20 PM  
Anonymous Anonymous said...

Alltaf kemur Hilmar Þór með ný skemmtileg gullkorn.
Hlakka orðið til að sjá ykkur hvort sem það verður fyrir eða eftir páska. Okkur er líka farið að lengja eftir vorinu, en það var rosalega gott að komast aðeins í sólina.
kv. Bára

9:23 PM  
Anonymous Anonymous said...

Vá hvað ég skil þig vel með gæsahúðina og tárin í augun. Ég fékk skilaboð frá Eddu um kl.3 að vatnið væri farið og um kl.6 var mig farið að lengja eftir frekari fréttum. Þá var mér tilkynnt að þetta væri eðlilegur tími, það væri ég sem væri ekki innstillt á neitt eðlilegt þegar kemur að fæðingum (hahahaha).
Guð eða ekki Guð, skiptir ekki öllu máli, Honum fannst gaman að fá Hilmar í messuna og það eitt skiptir máli, hann er nottlega bara snillingur þessi drengur. Hlökkum til að hitta ykkur öll, verðið þið ekki heima vikuna fyrir páska??

Dagný og co

10:28 PM  
Anonymous Anonymous said...

Ég endursagði söguna inn á blogginu mínu eins og ég fékk hana frá Völla - sem hló sig máttlausan þegar hann endursagði hana. Hún er merkilega lík og ætli ég láti hana ekki bara standa - sem góðan vitnisburð um hvernig sögur geta breyst eftir því hver segir þær.
Búin að sjá mynd af litlu skvísu - ekkert smá falleg og þá held ég bara að við séum næst!!!!!!!
Knús til ykkar,
Þóra og Völli

11:18 PM  
Anonymous Anonymous said...

Til hamingju með frænkuna :D:D:D
Já ég mæli sko ALVEG með því að taka sér smá vetrarhlé og kynnast sólinni uppá nýtt!! og Tenerife er sko alveg ágætis staður til þess (vorum þar í jan)
Ég er ekki alveg viss um að það verði svona ánægjuleg lífsreynsla að fara með son minn í messu HEHEHE Hilmar litli snillingur!

Bestu kveðjur - Þórey og co - sem láta kannski verða af því að koma í heimsókn þessa páska....

8:29 AM  
Blogger Ameríkufari segir fréttir said...

Auðvitað varð guð glaður að sjá Hilmar í kirkjunni. Hilmar er svo flottur strákur:) og þú flott mamma. Sakna þín, heyrumst, Svanfríður

4:34 PM  
Anonymous Anonymous said...

Æ en hrikalega krúttlegt hjá honum Hilmari! Börn eru snillingar og mér finnst sko ekkert skrítið að þú fáir gæsahúð og tár í augun þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn, það er bara ekkert jafn stórkostlegt!
Bestu kveðjur úr Hornafirðinum,
Árdís og familía.

10:13 PM  
Anonymous Anonymous said...

Jú, börnin eru kraftaverk. Með auknum þroska og ég tala nú ekki um foreldrahlutverkinu verður maður svona gæsahúðarlegur! Kær kveðja úr firðinum kalda. Gulla

9:44 PM  
Anonymous Anonymous said...

Hæ, hæ!
Ég er nú alveg sammála með að vorið verði nú bara að fara að koma. ´En ég held að sumarið verði gott og við verðum víst bara að bíða eftir því.
Frétti af hlaupabólustráknum, hefur Arndís alveg sloppið?
Jæja, best að kíkja á lærdóminn ;-)

Kv. Ingunn og Rannveig Harpa

7:30 PM  
Anonymous Anonymous said...

jess dugleg að blogga... keep up the good work maður =) ég var að henda inn færslu og smá myndum af litlu prinsessunni :Þ

heyrí ykkur fljótlega

ester

11:37 PM  
Anonymous Anonymous said...

exploring ratesthe confirmation easiest keeping investors borut adjacent pipe reveals decisive
lolikneri havaqatsu

6:19 PM  

Post a Comment

<< Home