Thursday, May 08, 2008

Hvar á ég að byrja?

Það er ekki hægt að segja að ég sé virkur bloggari! Það er svo langt síðan ég skrifaði síðast að ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja. Ætli að það sé þá ekki bara best að taka punktafærslu ala Ester á þetta.....

  • Við fórum suður um þarsíðustu helgi. Það var voðalega ljúft og við náðum að heimsækja nokkuð marga. Amman og afinn ofdekruðu börnin og ég náði að hvíla mig vel og mikið. Takk kærlega fyrir okkur.
  • Um síðustu helgi skellti ég mér svo á Öldungamót í blaki á Ísafirði með Sindrastelpunum og það var mjög gaman. Að vísu minnist ég þess ekki að hafa fengið jafn mikla strengi nokkurn tímann á lífsleiðinni enda hefur mín sjaldan verið í eins afleitu formi og þessa dagana.
  • Sökum samviskubits hef ég farið tvisvar út að hlaupa í þessari viku og vonandi tekst mér að halda áfram að vera dugleg!
  • Við fengum tvo mjög góða daga núna í vikunni og VÁ hvað maður fyllist af orku! Við eyddum þessum dögum að mestu í garðinum með börnunum og það var bara GAMAN. Nú klæjar mann bara í fingurna að halda áfram að koma garðinum og pallinum í sumarbúninginn en því miður virðist sumarið hafa skroppið í vetrarfrí þannig að ég á nú ekki von á að vera dugleg um helgina.
  • Það er nóg að gera í kennslunni. Það er alveg með ólíkindum hvað manni finnst maður alltaf eiga eftir að gera margt þegar einungis nokkrar vikur eru eftir fram að sumarfríi....viðtöl í næstu viku, námsmat, þemaverkefni o.s.frv. en mín brettir bara upp ermarnar, spítir í lófana og rúllar þessu upp!
  • Börnin á heimilinu eru alltaf jafn yndisleg. Arndís Inga er alltaf að læra ný orð og er allt í einu hætt að vera smábarn. Hilmar Þór er voða góður stóri bróðir og passar upp á systur sína. Þau elska bæði útiveru og þurfum við oftast að beita brögðum til að ná þeim inn:)
  • Svefnmálin löguðust á heimilinu þegar móðirin skrapp í orlofið um síðustu helgi og höfum við fengið að sofa alveg óáreitt allar nætur síðan ég kom heim. Ætli að ég verði ekki bara að gera þetta aðeins oftar;)
  • Jæja ætli að ég láti þetta ekki duga að sinni
  • Eigið góða hvítasunnuhelgi elskurnar mínar
  • kv. Helga