Monday, August 28, 2006

Blessuð rigningin!

Já loksins er farið að rigna! Það er búið að vera ,,leiðindaveður" í dag, rigning og rok og ég er alveg svakalega sátt við það. Ég var alveg komin með nóg af sólinni og hitanum. Þessi ólétta hækkar hitastigið í líkamanum til muna þannig að núna syng ég bara: ,,I'm singing in the rain, I'm singing in the rain, what a....."
Annars vorum við að koma frá Húsavík. Fór í mæðraskoðun sem kom vel út og versluðum fyrir Veiðó og heimilið.
Í gærkvöldi heimsóttum við Grímshúsahjónin og borðuðum dýrindis kvöldverð með þeim. Marinó og Svana komu líka og áttum við hina notalegustu stund. Að vísu fóru strákarnir að moka fúkyrðum yfir hvern annan þegar leið á kvöldið en við erum nú orðnar vanar því! Fyrr um daginn fórum við Ingibjörg og Edda með börnin inn á Akureyri í bíó, ætluðum að sjá Gretti en það var uppselt þannig að við fórum á Ástrík. Hilmari leist vel á þetta til að byrja með en eftir u.þ.b. fimmtán mínútur þurfti hann á salernið og þá missti hann áhugann, sagðist bara vilja fara heim. Ég reyndi að tala hann inn á það að vera lengur, tók hann í fangið og hughreysti hann en hann lét sér ekki segjast. Við yfirgáfum því bíóið og fengum okkur rúnt á meðan myndin kláraðist.
Ég held áfram að afsaka mig með myndaleysið Svanfríður mín, það er alveg með ólíkindum hvað mér finnst erfitt að lyfta henni upp og smella af! Ég er hins vegar komin með mikið samviskubit yfir þessu þannig að það hlýtur að fara að gerast fljótlega.
Hafið það gott.
Kv. Helga

Wednesday, August 23, 2006

Sælt veri fólkið og takk fyrir öll kommentin við síðustu færslu!
Héðan er frekar lítið að frétta, brjálað að gera í vinnu hjá Pésa og Hilmar Þór byrjaður í aðlögun á leikskólanum sem gengur mjög vel. Ætli að maður fari ekki svo bara að undirbúa komu nýja barnsins, þvo föt og hvíla sig:)
Við fórum í afmæli í dag til Stefáns Óla og Hilmari fannst það voðalega gaman. Að vísu leist honum ekki á hávaðan og lætin í öllum þessum börnum þannig að hann hélt sig til hlés og lék sér að dótinu inni á meðan hin börnin ærsluðust úti í góða veðrinu. Hann virðist því ekki vera eins mikil félagsvera og móðir hans!
Hér er alltaf sama góða veðrið, sól og yfir tuttugu stiga hiti! Mér finnst að vísu alveg nóg komið af þessum helv... hita og Norðlendingarnir benda mér á að ég sé bara ekki vön þessari veðráttu:) Hingað til hef ég nú reynt að malda í móinn og halda uppi vörnum fyrir Hornafjörðinn góða en svei mér þá ef ég fer ekki bara að láta sannfærast (að vísu ætla ég að bíða og sjá hvernig veturinn verður, aldrei að vita nema Höfn græði nokkur stig þar:)
Því miður sé ég ekki fram á að komast í brúðkaupið hjá Völu og Steina um helgina, svo Elsa og Þórhalla þið skilið kveðju til hennar og verðið duglegar að taka myndir fyrir mig.
Læt þetta duga í dag, aldrei að vita nema ég verði dugleg á morgun og taki nokkrar myndir af Nesi fyrir þig Svanfríður mín og setji inn annað kvöld.
Kv. Helga

Sunday, August 20, 2006

Fleiri myndir


Hilmar Þór að brosa fyrir mömmu sína

Hilmar Þór litla barnið hans pabba síns

Smá bumbumynd fyrir Svanfríði

Hilmar Þór í garðpartýi í gærkvöldi Posted by Picasa

Loksins myndir

Jæja lesendur góðir, loksins setti ég inn myndir. Við vorum að vísu að uppgötva það að við höfum ekki verið nærri nógu dugleg að taka myndir í sumar þannig að við verðum að bæta úr því. Annars er gott að frétta af okkur. Hilmar Þór var að byrja í aðlögun á leikskólanum í síðustu viku og hann ætlar að prófa að vera einn í smá tíma á morgun.
Sólin skín á okkur þessa dagana og Hilmar Þór var úti í allan dag, fyrst með mér í Veiðiheimilinu að stússast og svo í skúrnum með pabba sínum í mótorhjólaviðgerðum. Hann var ekkert smá flottur á þríhjólinu sínu í gær, sem að sjálfsögðu er mótorhjól í hans augum. Hann sparkaði því í gang og snéri upp á handföngin og þegar hann kom heim í hlað setti hann það á hliðina (á standarann eins og hann orðaði það) við hliðina á öllum hinum mótorhjólunum:)
Hafið það gott
Kveðja úr sólinni
Helga og co.



 Posted by Picasa

Saturday, August 19, 2006

Lítið að frétta

Komið þið sæl. Það er nú óskaplega lítið að frétta héðan en ætla alla vega að láta ykkur vita af því að við erum á lífi og höfum það gott í sveitasælunni. Pési er að byrja að vinna á morgun og þá verðum við Hilmar aftur í reiðileysi! Annars erum við búin að hafa það mjög gott í fríinu þó svo að við höfum ekki farið neitt eftir Vopnafjarðarheimsóknina um síðustu helgi. Við fengum okkur rúnt um sveitina í gær, skelltum okkur í sund í Heiðabæ og höfðum sundlaugina út af fyrir okkur. Við kíktum eina snögga ferð á Akureyri í fyrrakvöld og heimsóttum Móða, Björgu, Daða og Atla. Í kvöld er svo stefnt að því að grilla humar og hafa það gott hér í Árnesi. Ég ætla að vinna í myndamálum næstu daga og vona að ég geti sett inn nokkrar fljótlega!
Hafið það gott og endilega kíkið í heimsókn ef þið eigið leið hér um.
Kv. Helga

Wednesday, August 16, 2006

Fréttir úr fríinu

Komið þið sæl. Við erum enn í Árnesi!!! Já það er líka ágætt að eyða nokkrum dögum í rólegheit heima hjá sér. Pési eyddi gærdeginum í bókhald sem hafði safnast upp yfir sumarið. Við erum því mjög ánægð með að það sé frá. Í dag er stefnan tekin á Akureyri. Þar ætlum við að fara í Byko og Húsasmiðjuna og skoða efni í húsið okkar. Pési sendi teikningar af gluggunum á nokkra staði í gær þannig að við bíðum eftir tilboðum núna. Þetta er því allt að koma hjá okkur.
Um síðustu helgi kíktum við í heimsókn á Vopnafjörð til Steina, Ellu og Sindra og var það mjög gaman. Við vorum síðan að spá í sumarbústað í Víðidalnum eða að skreppa til Völla og Þóru í Þjórsárdalinn en þar sem góða veðrið virðist ætla að koma til okkar þá nennum við ekki að keyra okkur í rigninguna. Það er aldrei að vita nema maður skelli sér bara í stutta útilegu í Ásbyrgi þegar nær dregur helgi. Þeir sem hafa áhuga á að skella sér með endilega hafið samband:)
Jæja hef ekkert að segja, læt þetta duga í dag.
Hafið það gott. Kv. Helga og co.

Thursday, August 10, 2006

Langþráð frí í vændum

Komið þið sæl. Já það er rétt, Pési er að fara í frí!!!! LOKSINS, LOKSINS, segjum við Hilmar Þór. Þá er bara að skipuleggja hvað skuli gert. Nýjasta veðurspáin spáir besta veðrinu Sunnanlands en við erum kannski ekki alveg að nenna að keyra voðalega langt. Við þiggjum því góðar hugmyndir frá ykkur, kæru lesendur.
Kv. Helga

Sunday, August 06, 2006

Fríið búið og sveitalífið tekið við

Komið þið sæl. Jæja nú erum við Hilmar Þór komin aftur heim í sveitina og við tekur hið venjubundna sveitasælulíf! Fríið okkar var mjög skemmtilegt. Sumarbústaðaferðin heppnaðist mjög vel og þökkum við Báru frænku, Ingunni, Rannveigu Hörpu og Einari Gunnari kærlega fyrir skemmtilega daga. Síðan stjönuðu amma og afi auðvitað við okkur í Kópavoginum, ég hvíldi mig vel og þau fóru með Hilmar í Smáralind, á róló og fleira í þeim dúr. Í gær keyrðum við svo norður og amma og afi gistu í Nesi (gott að hafa sér gestahús:). Núna ætlum við að skella okkur upp á Laugar að kíkja á unglingalandsmót og ætli að við grillum okkur ekki með ömmu og afa í Nesi í kvöld.
Pési vonast til að fá eitthvað frí í vikunni og e.t.v. næstu viku líka þannig að þá gerum við eitthvað skemmtilegt! Að vísu vorum við að segja að skynsamlegast hefði verið að byrja að skipta um glugga í Nesi í fríinu en þar sem við höfum ekki haft tíma til að græja það þá verður líklega ekkert af því. Ætli að við reynum hins vegar ekki að koma því í verk að senda inn teikningar á hina ýmsu staði og fá tilboð svo við getum farið að hefjast handa fljótlega.
Jæja ætla að láta þetta duga í bili. Hafið það gott. Kv. Helga