Thursday, October 26, 2006

Staðan í sveitinni í dag

Komið þið sæl, ætli að það sé ekki kominn tími á annað blogg. Að vísu er mjög lítið í fréttum þannig að ég veit ekki alveg hvað ég á að skrifa. Dagarnir í sveitinni eru allir mjög líkir. Pési fer yfir í Nes um 8:30 og kemur heim rétt fyrir kvöldmat. Hann er með einn mann með sér og mér skilst á þeim að þessi blessaða steniklæðning sé mjög seinunnin, ætli að það sé ekki raunhæft að stefna að flutningum fyrir jólin 2009?? Nei, nei ætli að það þýði nokkuð að vera svona svartsýnn. Það fer ósköp vel um okkur hér í Árnesi þannig að okkur liggur ekkert á (hver tók fram fyrir hendurnar á mér núna og skrifaði þessa vitleysu?? auðvitað liggur okkur á og mig langaði helst að flytja inn í gær:)
Hilmar Þór er voðalega góður stóri bróðir, fer mjúkum höndum um systur sína, klappar henni á kinnina og segir ástin mín við hana svona u.þ.b. 20 sinnum á dag.
Sú litla var vigtuð í gær, orðin 4600 grömm og er farin að fá fellingar. Hún dafnar því vel og erum við afskaplega þakklát fyrir það.
Við stefndum að því að skíra fyrstu helgina í nóv. en Pési var að komast að því að þá er löng innilota í skólanum þannig að ég býst við því að við frestum því um eina helgi. Að vísu langar mig helst að skíra hana núna um helgina í staðinn en þar sem mamma og pabbi eru í sólinni í Barcelona finnst okkur við ekki geta annað en beðið eftir þeim. Hún verður því bara kölluð prinsessa aðeins lengur (enda fer það nafn henni svo vel:)
Eitt í lokin. Okkur langar mjög að fara að fá gesti, allir velkomnir í sveitasæluna (aldrei að vita nema þið sleppið við að vera færð í vinnugallann:)
kv. Helga

Sunday, October 22, 2006

Framkv. Nes

Jæja nokkrar myndir af framkvæmdum En akkurat á þessum tímapunkti er langt komið að setja einangrunar grindina á húsið..

kv
Árni P og co




 Posted by Picasa

Stór fréttir

Ég ætlaði nú að setja inn myndir af framkvæmdum í Nesi en eitthvað stærra hefur gerst en allar þessar framkvæmdir!! Helga settist niður og fór að sauma ! þetta er í fyrsta skipti í okkar 10 ára sambúð sem þetta gerist, og vonast ég til að þetta verði með markvissari og tíðari hætti en verið hefur...

p.s. og svo smá myndir af fjölsk. með

kv Árni P og co




 Posted by Picasa

Saturday, October 21, 2006

Helgarfrí, hvað er það?

Já nú er víst komin enn ein helgin. Ekki það að hér í sveitinni eru allir dagar eins þannig að við kippum okkur ekkert upp við það þó það komi helgi, það er jú nammidagur á laugardögum og við tökum eftir því. Hilmar Þór talar um nammi, súkkulaði, kökur og ís alla daga þannig að við þurfum ávallt að minna hann á að það sé ekki nammidagur fyrr en á laugardaginn, svo við getum ekki annað en dælt í hann sælgætinu á laugardögum:)
Nú erum við að bíða eftir því að litla prinsessan vakni svo ég geti gefið henni að drekka og svo ætlum við að skella okkur á Húsavík að versla í matinn. Þegar maður er með iðnaðarmenn í vinnu er eins gott að eiga nóg með kaffinu!
Pési var að reyna að setja inn myndir í gærkvöldi, ég skil ekki af hverju þær komu ekki inn. Við verðum að skoða það mál fljótlega.
Ása var að mála andlitsmynd af Hilmari Þór og hún er FRÁBÆR! Nú ætlar hún að skella sér í að mála stubbu líka, ekki slæmt að hafa svona listamann í fjölskyldunni.
Við vorum að hugsa um að skella okkur í borgina næstu helgi en svo uppgötvaði áhugasami námsmaðurinn (not) að það á að vera innilota í skólanum um næstu helgi þannig að við verðum að fresta því ferðalagi. Vonandi komumst við samt sem fyrst.
Læt þetta duga í bili. Kv. Helga

Monday, October 16, 2006

staðan í dag

Komið þið öll blessuð og sæl. Héðan úr sveitinni er allt gott að frétta. Sú stutta dafnar vel og höfum við komist að því að ef ég væri kýr þá myndi ég fá að lifa! Ég mjólka nóg og er svo lausmjólka að daman hefur ekki undan, svelgist á og gleypir loft. Hún engist því greyið sundur og saman þangað til hún nær að losa sig við loftið. Það er því helsta vandamálið þessa dagana. Annars er hún alveg eins og ljós, sefur voða mikið og drekkur þegar hún er vakandi.
Staða á framkvæmdum í Nesi: Búið að brjóta vegg á milli eldhúss og stofu, parketið og eldhúsinnréttingin komin á haugana, gat út í garð tilbúið en fengum vitlausa hurð og sú rétta kemur vonandi á morgun.
Næsta á dagskrá í framkvæmdum: Bora í gólfið og setja hitalagnir, skella sér í borgina og ganga frá innréttingakaupum. Síðan vorum við að frétta það að hugsanlega fáum við smið í heimsókn annað kvöld til að aðstoða Pésa við að klæða húsið. Nú leggjumst við því bara á bæn! Við tökum ákvörðun um suðurferð þegar það er komið í ljós hvort smiðurinn komi strax eða ekki.
Læt þetta duga í bili. Hafið það gott þar til næst. Kv. Helga

Saturday, October 14, 2006

Smá fréttir

Komið þið sæl og blessuð öll sömul. Héðan úr sveitinni er lítið að frétta, bölvað rok og mér finnst eins og veturinn sé að fara að láta sjá sig. Prinsessan dafnar vel, er strax orðin ofdekruð og vill bara láta halda á sér! Við erum á fullu að reyna að finna nafn á dömuna og finnst það barasta ansi erfitt. Ef okkur tekst að finna eitthvað við hæfi stefnum við að því að skíra fyrstu helgina í nóvember.
Við erum að hugsa um að skjótast suður til Reykjavíkur fljótlega til að ganga frá pöntunum á innréttingum í eldhúsið og á baðið. Stærsta vandamálið í framkvæmdunum hjá okkur er skortur á höndum. Klæðningin er komin en Pési á ansi erfitt með að setja hana á einsamall. Þannig að ef einhvern vantar vinnu endilega látið okkur vita:)
Jæja prinsessan vill láta sinna sér. Hafið það gott. Kv. Helga

Friday, October 13, 2006

nokkrar nýrri myndir




 Posted by Picasa

Myndir (ekki alveg nýjar)


Stoltur stóri bróðir horfir á litlu systur

Svo kann maður nú að brosa...

...og sofa

Hilmar Þór mótorhjólatöffari (loksins búin að finna mótorhjólabuxurnar sem Ester og Garðar gáfu honum í afmælisgjöf) Posted by Picasa

Tuesday, October 10, 2006

smá blogg

Sælt veri fólkið. Héðan úr sveitinni er allt gott að frétta. Ljósmóðirin heimsótti okkur í gær og stubba hefur þyngst um 200 gr. og er orðin 3900 gr:) Hún dafnar því bara vel og er farin að verða nokkuð mannaleg finnst okkur. Okkur sýnist hún alltaf líkjast bróður sínum meira og meira, enda algjör óþarfi að breyta út af þeirri góðu uppskrift:)
Það var svo yndislegt veður í gær að við skelltum okkur með hana út að ganga, sóttum Hilmar Þór á leikskólann. Hann var voðalega glaður að fá að keyra vagninn og svo keypti mamma handa honum systkinasæti á vagninn og það var dálítið mikið sport að fá að sitja í því. Nú vonum við bara að veturinn verði mildur og góður þannig að ég geti gert þetta sem oftast.
Annars er voðalega gott að hafa svona ,,aupair" eins og ég hef haft undanfarna daga. Mamma stendur sem sagt sveitt við pottana, eldar og svo heyrist mér á henni að hún ætli að taka sig til og baka í dag;) Endilega kíkið í kaffi!
Nú eru framkvæmdir í fullum gangi í Nesi. Mamma og Pési fóru í gær og tóku allt úr eldhússkápunum þannig að nú er hægt að fara að stað með sleggjuna! Svo er verið að saga gat út á svalirnar í þessum töluðu orðum og við bíðum eftir svalahurðinni sem við pöntuðum í gær. Klæðningin er svo mætt á svæðið og bíður eftir því að komast á veggina! Það er því nóg að gera á stóru heimili.
Jæja litla er farin að gráta, verð að sinna henni. Reyni að setja inn myndir í kvöld ef stóra vélin kemst í gagnið. Hafið það gott. Kv. Helga og co.

Friday, October 06, 2006

Smá fréttir úr sveitinni

Sælt veri fólkið og enn og aftur þúsund þakkir fyrir allar kveðjurnar:)
Héðan úr sveitinni er allt gott að frétta. Sú litla dafnar vel og líf hennar snýst í aðalatriðum um að drekka og sofa. Að vísu fékk hún smá í magann í gær og má líklega rekja það til vínberja sem ég borðaði óvart í fyrrakvöld, þau verða því ekki á matseðlinum á næstunni!
Greyið stelpan klæðist aðallega bláu þessa dagana en það stendur til að laga bót á því á laugardaginn því þá fær hún troðfullan stóran kassa af fötum af Andreu Ósk. Við erum alltaf að fatta það betur og betur hvað við vorum í rauninni praktísk að koma með stelpu því Andrea á svoooo mikið af fötum að við þurfum örugglega ALDREI að kaupa föt á hana:) þannig að Hemmi ef þú lest þetta haltu bara áfram að kaupa föt í Ameríkunni....koma svo!
Annars erum við mæðgurnar bara einar heima núna. Pési og Hilmar Þór fóru inn á Akureyri að sækja mömmu og pabba. Pabbi ætlar að stoppa fram á sunnudag en mamma ætlar að vera hjá okkur fram á fimmtudag í næstu viku. Pési ákvað því að nota ferðina og sækja klæðninguna í Byko og hann og pabbi ætla að byrja eitthvað að stússa í því um helgina.
Við böðuðum prinsessuna í fyrsta skipti í gær og kunni hún vægast sagt MJÖG vel við það, heyrðist ekki í henni allan tímann, við setjum inn myndir af því fljótlega.
Hilmar Þór er alltaf voðalega duglegur og góður við hana. Hann sagði nú samt um daginn: ,,Ég er ástin ykkar" bara svona rétt til að minna okkur á það:) Við reynum því að vera dugleg að sinna honum, pabbi hans býður honum reglulega á mótorhjólið og í gröfuna svo honum finnist hann ekki vanræktur!
Jæja ætli að ég verði ekki að fara að sinna dótturinni. Hafið það gott. Kv. Helga

Wednesday, October 04, 2006

Myndir


Ýmislegt reynt til að fá dömuna til að ropa

Hilmar Þór með Ásu ömmu í brúðkaupi Grímsa og Ingibjargar

Verið að skipta um bleiju

Pabbi með börnin sín Posted by Picasa

Tuesday, October 03, 2006

Fleiri myndir


Stóri bróðir að gefa litlu systur mynd eftir sig

Oh hvað það er gott að sofa

.... og sofa....

Sæt systkini:) Posted by Picasa

Komin heim

Komið þið sæl og takk kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar, mann vöknaði bara um augun við að lesa allar kveðjurnar!
Við komum heim í gær eftir frábæra dvöl á sjúkrahúsinu á Húsavík þar sem stjanað var við okkur. Það er hins vegar alltaf gott að komast heim og eyddum við deginum í að koma okkur vel fyrir í herberginu okkar. Litlu prinsessunni líður vel hér heima, svaf meiri að segja í fimm tíma samfleytt í nótt:) Hilmar og Andrea eru voðalega góð við hana en við þurfum nú samt að vera vel á verði því þau geta verið ansi harðhent. Hilmar vaknaði í nótt þegar ég var að gefa henni og klappaði henni og strauk, voða, voða góður stóri bróðir. Að vísu var hann svo uppgefinn eftir daginn að hann sofnaði klukkan sjö yfir Ávaxtakörfunni. Ég var því ansi hrædd um að hann myndi vaka lengi í nótt þegar hann vaknaði en sem betur fer var hann alveg tilbúinn til að halda áfram að sofa þegar ég var búin að gefa.
Ég ætla að setja inn smá fæðingarsögu fyrir þá sem áhuga hafa á svoleiðis löguðu, viðkvæmar sálir hættið því að lesa núna:)
Þessi fæðing, eða aðdragandi hennar, var með allt öðru sniði en þegar ég átti Hilmar. Ég var búin að vera með óreglulega verki í nokkra daga og var alveg orðin rugluð, vissi ekkert hvort eitthvað væri að fara að gerast eða ekki. Það var frekar óþægilegt því eins og þið vitið þurftum við að keyra í klukkustund inn á Akureyri til að eiga og mér heyrðist Pési helst ekki vilja taka á móti í Víkurskarðinu. Aðfaranótt 28. sept. vaknaði ég með smá verki um tvö leytið. Ég náði mér í blað og penna og fór að skrifa niður. Verkirnir voru ekki harðir og komu á bilinu 8-15 mínútna fresti. Klukkan sex ákváðum við að skreppa inneftir og láta skoða mig, en bjuggumst allt eins við að fara heim aftur. Við komum svo inn á fæðingardeild rétt rúmlega sjö og við skoðun kom í ljós að ég var með þrjá í útvíkkun og töldu þær að það vantaði bara herslumuninn að ég færi að stað. Þær hreyfðu við belgnum og buðu mér að leggja mig í klukkustund og sjá hvað myndi gerast. Við fengum þessa fínu stofu með tveimur rúmum og hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar að ná okkur í smá kríu, en nei Pési mátti ekki leggja sig í hitt rúmið en fékk þennan líka ,,mjúka" eldhúskoll til að láta fara vel um sig á:) Nú eftir rúma klukkustund var ég sett í monitor en eitthvað lítið virtist hafa gerst en töldu þær samt líklegt að það væri orðið stutt í þetta. Við ákváðum því að skella okkur í verslunarferð í bæinn, gengum m.a. frá pöntun á klæðningu á húsið, skoðuðum glugga og versluðum sitt hvað í bílinn og fleira. Við sem sagt notuðum ferðina:)
Seinni partinn fórum við svo í heimsókn til Jónasar og Söru og sátum við hjá þeim til klukkan níu um kvöldið en þá voru verkirnir farnir að verða harðari og þéttari. Við skelltum okkur því upp á deild en þar sem öll herbergi voru yfirfull fengum við að dúsa inn í sjónvarpsherbergi með fullt af konum með litlu börnin sín í rétt um klukkustund. Ég verð nú að viðurkenna það að mér leið hálfasnalega að vera með þvílíku hríðirnar í kringum allar þessar nýbökuðu mæður og það var ekki laust við að ég sæi vorkunnarsvipinn í augum þeirra, enda höfðu þær orð á því hvort það ætti ekkert að fara að gera fyrir mig. Rétt um 22:30 fengum við svo að fara inn í undirbúningsherbergið og klukkan 23:00 kom yndisleg ljósmóðir á vakt sem fékk þá snilldarhugmynd að láta mig í heitt bað, vááá hvað það var ljúft. Þar náði ég þvílíkri slökun og útvíkkunin rauk upp í 8 á smástund. Um miðnætti var mér svo dröstlað upp úr baðinu, þvert á mínar óskir, og litla daman fæddist svo klukkan 01:15. Þessi klukkustund var assskoti lengi að líða og er ég staðráðin í að heimta að fá að eiga í baði næst!
Sem sagt í stuttu máli sagt gekk fæðingin vel, mun hraðar fyrir sig en þegar ég átti Hilmar. Þannig að endilega sleppið því bara að eiga barn nr. 1 og skellið ykkur beint í barn nr. 2:)
Jæja ætli að ég verði ekki að fara að sinna húsverkum, hengja upp þvott og svoleiðis. Nóg að gera á stóru heimili!
Hafið það gott, við setjum inn fleiri myndir seinna í dag. Enn og aftur takk kærlega fyrir allar góðu kveðjurnar. Kv. Helga

Sunday, October 01, 2006

og aðeins meiri myndir

Hérna er Hilmar þór að heimsækja litlusystir í fyrsta skipti ég er nú bara að setja inn nokkrar myndir hérna handa myndaþyrstum ættingjum og vinum, en Helga skrifar svo pistla þegar hún kemur heim en við áætlum að það verði á morgun.
bestu kveðjur og takk fyrir árnaðaróskir og hlýja strauma
Árni p og fjölsk




 Posted by Picasa

jæja loksins myndir af Árnadóttir




 Posted by Picasa