Sunday, July 30, 2006

Jæja þá er víst kominn tími á annað blogg lesendur góðir. Í fréttum er þetta helst að á morgun ætlum við Hilmar Þór að skella okkur suður á bóginn í sumarbústað með Báru, Ingunni, Rannveigu Hörpu og Einari Gunnari. Faðirinn kemst því miður ekki með sökum anna í fylgdinni en við mæðginin höfum fengið nóg af sveitasælunni í bili og endalausri bið eftir að fjölskyldufaðirinnn skili sér heim þannig að við ætlum bara að leggja á flótta!
Hilmar Þór er mjög spenntur yfir því að fara í flugvélina og heldur því stöðugt fram að Hemmi muni fljúga vélinni. Honum líst líka ansi vel á sumarbústaðaferðina því í júní fórum við líka í bústað og hann hafði vægast sagt mjög gaman af því.
Ætli að ég verði ekki að fara að svæfa Hilmar Þór svo ég nái að vekja hann í fyrramálið. Ekki það að ég hef nú meiri áhyggjur af því að Ester svefnpurka sem ætlar að keyra okkur hafi sig ekki á fætur fyrr en undir hádegi:)
Í lokin vil ég biðjast afsökunar á myndaskorti en ástæðan er sú að það vantar netkort í borðtölvuna (sem geymir allar myndirnar) þannig að ég verð að skrifa bloggin á fartölvuna eins og er. Vonandi náum við að laga bót á því hið fyrsta.
Hafið það gott
kv. Helga

Friday, July 28, 2006

Fréttir úr sveitinni

Komið þið sæl. Jæja nú er komið í ljós að ekkert verður af langþráðu fríi föðurins sem átti að hefjast á sunnudaginn:( við erum ekkert voða kát með það en í staðinn fáum við bara dollaramerki í augun og reynum að brosa!
Annars er lítið að frétta úr sveitinni. Hemmi, Edda og Andrea Ósk voru að koma og þau frændsystkin hafa verið dugleg að leika sér. Pési, Garðar og Marínó fóru á móti Hemma og þeim á mótorhjólum og bíðum við nú eftir því að þeir skili sér. Heyrði í Pésa áðan og hann sagðist hafa lent í vandræðum með að koma hjólinu sínu í gang, ég býst því passlega við því að ,,þörfin" á mótorhjóli með rafstarti hafi aukist til muna í þessari ferð, ég er því í þessum töluðu orðum að brynja mig fyrir þeirri umræðu og þjálfa hæfileikann til að láta sem ég sé að hlusta en hleypa orðunum beint í gegn og út um hitt eyrað:)
Mér finnst líklegt að við Hilmar höldum kyrru fyrir í sveitinni en mamma og pabbi eru að spá í að kíkja í heimsókn um miðja næstu viku. Ætli að við reynum ekki að kíkja aðeins í útilegu með þeim svo Hilmar Þór komist smá í tjald þetta árið.
Síðan fer bara að styttast í að maður fari að undirbúa komu barnsins, finna til föt og þvo og svoleiðis. Okkur finnst þetta samt enn svo fjarlægt eitthvað en tíminn flýgur víst og með þessu áframhaldi verður barnið fætt áður en maður veit af!
Jæja ætli að ég láti þetta ekki duga í bili, frændsystkinin eru eitthvað aðeins farin að takast á.
Hafið það gott
kv. Helga og co.

Sunday, July 23, 2006

Tilbreytingalausir dagar í sveitinni

Sælt veri fólkið, mikið var ég ánægð að sjá að þið höfðuð ekki snúið við okkur baki! Annars er voðalega lítið að frétta úr sveitinni, lítið gerst síðan síðast var bloggað. Pési sést heima rétt í mýflugumynd en er annars niðri við á að guida. Hilmar Þór er orðinn frekar leiður á mömmu sinni og tilbreytingalausu lífi. Ætli að ég verði ekki að fara að setja mig í samband við einhverja hér í nágrenninu og kíkja með hann af bæ.
Ég sló garðinn í gær og tjaldaði tjaldinu hans Hilmars og hann hafði mikið gaman af því. Í dag fór hann svo með pabba sinn í skoðunarferð sem tókst ekki betur en svo að pabbinn festist í göngunum á milli tjaldanna og sat þar fastur þegar ég kom út með nesti handa þeim. Hilmar Þór stóð sig hins vegar eins og hetja í að hughreysta hann, hélt í höndina á honum og sagðist skyldi passa hann þangað til ég kæmi og bjargaði honum.
Fyrstu útlendingarnir komu í veiðiheimilið í dag og Hilmar var mjög duglegur í að hjálpa þeim að setja saman veiðistangirnar sínar og taka upp dótið. Eins og gefur að skilja tókst honum ekki að gera sig skiljanlegan við þá en hann lét það nú samt ekki stöðva sig í að tala við þá og veitti hann þeim mjög góðar leiðbeiningar. Karlagreyin reyndu að gera eins og hann bað þá og það var mesta furða hvað þeir náðu vel saman. Tungumálaerfiðleikar þurfa því ekki að stöðva okkur í að eiga samskipti við fólk sem við skiljum ekki! Ég tók mig að vísu til um daginn og reyndi að kenna Hilmari að segja: ,,My name is Hilmar" þannig að hann gæti kynnt sig fyrir útlendingunum. Pabba hans fannst þetta svo sniðugt að hann byrjaði strax að spyrja hann: ,,How are you today?" o.s.frv. en ég náði að stoppa hann af í því, tel nóg að reyna að láta hann ná góðum tökum á að kynna sig fyrst.
Jæja ætli að ég láti þetta ekki duga í dag. Þið eruð velkomin í HEIMSÓKN hvenær sem er, aldrei að vita nema ég geti hellt upp á kaffi og bakað pönnsur handa ykkur.
Kv. Helga og co.

Friday, July 21, 2006

Loksins nýtt blogg úr sveitinni

Afsakið letina lesendur góðir, ef þið eruð ekki allir löngu hættir að gera ykkur ferð inn á síðuna. Ég fatta það núna í þessum töluðu orðum að við höfum ekki tekið upp myndavélina til að smella af myndum af Hilmari síðan við komum í sveitina, þegar þessari færslu er lokið ætla ég því að finna græjuna og smella alveg villt og galið!
Annars hefur ýmislegt gerst síðan ég skrifaði síðast. Við hjónaleysin búin að skella okkur í sólina til Spánar, búin að fara í brúðkaup aldarinnar þar sem Pési fór á kostum í hlutverki veislustjóra (og talaði eins og gæs að mati sumra veislugesta:), búin að standsetja veiðiheimilið með hjálp Báru og Ásu og búin að hafa meira en nóg að gera. Ég vann í eldhúsinu í hálfan mánuð og Pési bjóst við því að vera laus fyrir það mesta til að vera með Hilmari. Raunin varð hins vegar önnur því Pési þurfti að guida næstum því allan Íslendingatímann þannig að Hilmar greyið þvældist með okkur í Veiðiheimilinu alla daga. Við komumst að því að við eigum alveg roooosalega ,,þægilegt" barn því hann var þvílíkt góður og hjálpsamur. Ég byrjaði á því að flytja hálfan dótakassann með okkur en komst fljótlega að því að honum fannst lang skemmtilegast að fá að hjálpa okkur við eldamennskuna, baksturinn og uppvaskið. Við skelltum því bara svuntu á hann og þá var hann fínn!
Núna er ég hins vegar komin í frí og við mæðginin hjólum hringinn með ánni daglega til að leita að ,,pabba" okkar, skellum okkur í sund (sem er um það bil það skemmtilegasta sem Hilmar Þór gerir) og hvílum okkur í sveitinni. Svo bíðum við bara eftir vikufríinu sem pabbi fær um mánaðarmótin og þá skellum við okkur vonandi eitthvert í smá útilegu.
Annars fórum við Hilmar og Ása inn á Akureyri í dag. Þar fór ég í sónar og Hilmari fannst voða skrítið að sjá litla barnið í ,,sjónvarpinu", síðan skelltum við okkur í nokkrar búðir og að lokum í langþráða sundferð. Þar sem hvorki Bára frænka né pabbi voru nálægt urðum við Ása að taka að okkur að fara með litlamann í rennibrautina. Við kviðum þessu báðar en sem betur fer skynjaði Hilmar Þór ótta okkar og sagðist hafa verið hálfhræddur eftir ferð númer tvö þannig að hann vara alveg sáttur við að halda sig bara í barnalauginni:)
Annars lenti Hilmar greyið í ansi óskemmtilegri lífsreynslu í vikunni þar sem hann lék sér við Þráin Maríus frænda sinn á pallinum niðri í garði. Þráinn stökk niður pallinn og vakti við það geitunga sem höfðu hreiðrað vel um sig undir honum. Hilmar Þór sem fylgdi í humátt á eftir frænda sínum vissi ekki fyrr en hann stóð í skýi af geitungum sem allir vildu ,,kyssa" hann. Hann fékk tvær stungur og grét mikið. Ég hef verið að reyna að gera þetta ekki að mjög skelfilegri minningu með því að segja honum að flugurnar hefðu bara viljað kyssa hann, það hefur virkað ágætlega! í kvöld kom svo meindýraeyðir og fjarlægði búið þannig að það er aldrei að vita nema við skellum okkur í garðinn á morgun og tjöldum tjaldinu sem ég keypti handa erfðaprinsinum í Byko í dag.
Jæja ætla að fara að sofa. Vonandi hafið þið, kæru vinir, ekki allir snúið við okkur baki. Endilega kommentið eitthvað á þessi skrif mín, það er svo gaman! (Og Svanfríður ég er alveg að fara að hringja í þig)
Kveðja Helga og co.