Sunday, June 29, 2008

Seint blogga sumir en blogga þó!

Æi mikið óskaplega er ég löt að skrifa eitthvað inn á þetta blessaða blogg. Ég er meiri að segja farin að gleyma að kíkja hér inn á bloggrúntinum mínum.....en ætli að ég reyni ekki að bæta mig í þessu, bretti upp ermar og hysji upp um mig buxurnar!
Nú er ég löngu komin í sumarfrí og hef verið á flakki í tæpar þrjár vikur. Við byrjuðum á því að fara í brúðkaup á Ólafsvík og þar á eftir renndum við í borgina og skildi Árni Pétur mig og börnin eftir í dekri á Hlíðarveginum....úff hvað það er alltaf gott að koma þangað, hvíla sig og leyfa ömmunni og afanum að dekra við börnin (og mig:) Ætli að ég þurfi ekki að fara að splæsa í hvíldarinnlögn fyrir mömmu í Hveragerði svo hún nái sér eftir innrásina:)
Svo kíktum við á ættarmót í Öræfin. Það var mjög gaman fyrir utan veðrið en það var svona frekar blautt og leiðinlegt.
Eftir það lá leiðin til Hafnar...oh hvað það er alltaf gott að koma þangað. Veðrið lék við okkur (eins og vanalega) og við náðum að heimsækja flesta sem við þekkjum. Við gistum hjá Imbu og Nonna og það var alveg frábært, dekrað við okkur eins og venjulega. Takk kærlega fyrir okkur. Nonni var að vísu á sjó mestallan tímann en kom í land í nokkra klukkutíma og dró Árna Pétur með sér upp skarðið og á kajak. Við Imba höfðum nú orð á því að þetta hefði eitthvað snúist í höndunum á okkur því hér áður fyrr voru það við sem fórum út að ganga og hreyfa okkur og þeir sátu heima. En við náðum nú líka að fá okkur göngutúra með börnin og það var mjög gaman.
Núna erum við svo komin heim í heiðardalinn og á fullu að undirbúa opnun á Veiðihúsinu. Ég og Ása tengdamamma erum hálfnaðar með að þrífa og á að klára þetta á morgun. Svo vinn ég á þriðjudaginn með henni og svo heldur sumarfríið mitt áfram.
Árni Pétur stefnir á að vinna meira en minna í allt sumar þannig að ef þið viljið kíkja í heimsókn nú eða í útilegu með mér og börnunum endilega látið mig vita:)
Jæja nú ætla ég að fara að skella mér í bælið.
Hafið það gott og njótið sumarsins elskurnar mínar.
kv. Helga Sigurbjörg

Monday, June 02, 2008

Styttist í sumarfrí og brjálað að gera

Já nú er sko fjör í sveitinni! Orkan mætt á svæðið og nóg að gera:) Stefnan er tekin á brúðkaup á Ólafsvík um næstu helgi og ætla ég og börnin svo að skella okkur í borgina og eyða dágóðri stund með minni fjölskyldu á meðan bóndinn fer aftur norður að vinna. Undanfarnir dagar og vikur hafa því verið vel nýttir í garðvinnu, enda af nógu að taka þar! Svo er nú alltaf nokkuð mikið að gera í kennslunni síðustu dagana fyrir sumarfrí en ég tel mig þó vera á góðu róli þar....skólaslit á föstudaginn og allt á áætlun.
Við vorum með Landeigendaveislu um helgina og við Heiða og tengdó rúlluðum henni upp eins og okkur einum er lagið;) Svo skellti ég mér í bombuklúbb til Jóhönnu í gærkvöldi og svei mér þá ef ég er ekki bara enn södd eftir það.
Í dag býð ég svo börnunum í bekknum mínum í heimsókn til mín, búin að leigja hoppukastala og svo á að grilla. Hilmar Þór er voðalega spenntur fyrir þessu og hlakkar mikið til að hitta þau því hann hefur nokkrum sinnum komið með mér í skólann í vetur og á eitt bekkjarkvöld og finnst þau bara skemmtileg:)
Jæja ætli að ég fari ekki að nota tímann á meðan börnin eru í íþróttum til að ganga frá námsbókum.
Kv. Helga sem er alveg að komast í sumarfrí