Friday, December 29, 2006

Nú hóta ég að hætta!

Jæja nú held ég að það sé komið að því að hóta öllu illu og hætta að blogga því enginn hefur kvittað fyrir síðustu tvær færslur. Auðvitað nennir maður ekki að blogga ef enginn les það sem maður ,,púlar" við að skrifa! Núna vil ég sem sagt að ALLIR kvitti fyrir innlitið og ekki væri verra ef þið vilduð vera svo væn að sleikja aðeins úr mér fýluna t.d. með setningum á borð við þessa: ,,ÆÆÆÆ Helga það er svo frábært að lesa bloggin þín, PLÍS ekki hætta að blogga því þá leggst ég í þunglyndi",nú eða: ,,Geeerðu það að halda áfram að blogga, það er svo meiriháttar gaman að lesa skemmtilegu skrifin þín, bloggheimurinn verður svo tómlegur án þín"! Nokkrar svona setningar yrðu eflaust til þess að ég myndi endurskoða ákvörðun mína.
Bless þangað til næst (ef það verður eitthvað næst:)
kv. Helga

Framkvæmdastaða


Pési vígalegur með borinn (skömmu áður en hann tók í sundur rafmagnsinntakið í húsið:)

Ingi Björn seigur á hjólbörunum

Pabbi múrarameistari að störfum

Steypubíllinn að dæla steypu inn í forstofuna Posted by Picasa

Thursday, December 28, 2006

jólafréttir

Komið þið sæl og blessuð og gleðilega jólarest! Héðan er allt gott að frétta, jólin hafa farið um okkur ljúfum höndum og hefur okkur tekist að sporðrenna nokkrum kílóum af konfekti, smákökum og öðru kruðeríi. Pabbi kom í gær og hefur verið óstöðvandi úti í Nesi síðan, fullur af orku eftir sex vikna veikindafrí:) Við Pési höfum nú svolitlar áhyggjur af honum, finnst hann fara fullgeist af stað en hann hlustar ekkert á okkur og djöflast áfram. Hann og Pési hafa verið að leggja hitalagnir í gólfið og svo á að leggja í gólfið á morgun. Við Arndís Inga skruppum svo seinni partinn inn á Akureyri og sóttum mömmu og Inga Björn. Ingi Björn ætlar svo að hjálpa þeim við að leggja í gólfið á morgun. Stefnan er svo tekin á almenna afslöppun þegar því er lokið og e.t.v. að sprikla smá í fótbolta í Ýdölum.
Hilmar Þór vefur ömmu sinni um fingur sér, ég byrjaði að lesa fyrir hann fyrir svefninn og bauð honum góða nótt. Eftir nokkrar mínútur kom hann svo fram og sagðist engan veginn ná að sofna. Ég benti honum á að hann yrði að loka augunum og hvíla sig og með það stakk hann sér aftur inn í herbergi en kom út nokkrum sekúndum seinna og sagðist barasta ekki vera þreyttur. Þá bauðst amma til að lesa fyrir hann og hentist hann þá inn í rúm, sæll og glaður enda búinn að fá það sem hann vildi. Nú bíð ég bara eftir því að amma hans klári lesturinn svo ég geti farið með Arndísi inn í rúm. Já blessaðar ömmurnar eru góðar:)
Á morgun er stefnan svo tekin á ógurlegt jólaball með börnin og nýt ég liðsinnis mömmu við það. Þá er bara að bíða og sjá hvort hann rekist á jólasveinana og lesi þeim pistilinn, og aumingja grýla ef hún lætur sjá sig því hann hefur verið mjög upptekinn í grýluleik síðan hann sá hana síðast á jólaballi leikskólans og í honum er henni sko aldeilis ekki vandaðar kveðjurnar.
Hafið það gott. Kv. Helga

Monday, December 25, 2006

Jólamyndir


Arndís Inga komin í sparikjólinn


Fjölskyldan í sparifötunum

Arndís Inga að spjalla við hundinn sem Guðrún langamma gaf henni í jólagjöf

Hilmar Þór að handleika gítarinn (eða fiðluna:) sem Inga amma og Gunnar afi gáfu honum.

Jæja nú er aðfangadagskvöld liðið og börnin sofnuð eftir erilsaman dag. Við viljum þakka kærlega fyrir allar gjafirnar og jólakortin sem við fengum! Hilmar Þór stóð sig heldur betur vel í pakkaopnuninni en það kom okkur töluvert á óvart hvað hann gat setið lengi á sér. Við settum pakkana nefnilega undir tréð fyrir tveimur dögum síðan og áttum alveg eins von á að hann myndir ráðast á þá og opna þá löngu fyrir aðfangadag en honum tókst að halda ró sinni að mesu fram yfir kvöldmat í kvöld:) Hann fékk að sjálfsögðu að opna gjafir Arndísar Ingu líka og var auk þess boðinn og búinn til að rétta öðrum fjölskyldumeðlimum hjálparhönd við þeirrar gjafir. Hann innbyrði töluvert magn af sykri og hélt það honum í fullu fjöri fram undir miðnætti en þá skreið hann í ömmu og afaból og sofnaði.
Jæja ætli að það sé ekki best að koma sér í háttinn, nóg að gera að prufukeyra allt nýja dótið á morgun. Enn og aftur þúsund þakkir fyrir okkur og eigið góð jól öllsömul.
Kær kveðja Helga Posted by Picasa

Friday, December 22, 2006

myndir á aðventu fyrir vondaveðrið

Hér í sveitinni var eindæma fallegt áður en vondaveðrið kom sem tók allan snjóninn okkar.
Allt gegnur vel og það er að verða jólaklárt.
Hilmar þór er mjög jólaspenntur talar bara í pökkum og kökum, Hann er reyndar sannfærður um að jesús búi í kirkjunni og talar um að hann sé ekki heima þegar það er slökkt í kirkjunni;)
Það gengur sæmilega í nesi og er verið að reyna að gera klár til að steipa í gólf milli jóla og nýjárs

fallegt á aðventu


jólaljósin í garðinum


fór á túpilakka tónleika


jólaljóin okkar Kobba káta í myrkrinu Posted by Picasa

Tuesday, December 19, 2006

Desembermyndir


Litli bakaradrengurinn, alltaf liðtækur í eldhúsinu. Svo finnst honum langskemmtilegast að smakka:)

Já það er sko gaman í sveitinni!

Arndís Inga er farin að spjalla á fullu.

Litli engillinn okkar:) Posted by Picasa

Saturday, December 16, 2006

jó-ólin, jó-ólin a-alls-staðar....

Komið þið sæl öll sömul. Héðan úr sveitinni er allt gott að frétta, jólin á næsta leyti og í nógu að snúast! Pési skellti sér í hlutverk sveinka og málaði Húsavíkurbæ rauðan í dag, mér og Hilmari Þór til mikillar ánægju. Við mæðginin skruppum nefnilega í bæinn og hver haldið þið að hafi mætt í Húsasmiðjuna á sama tíma og við, jú rétt hjá ykkur það var nefnilega hann Kertasníkir. Ég átti ekkert smá erfitt með mig og það var frekar fyndið að sjá hann í þessu hlutverki. Hilmar Þór spjallaði helling við hann og auðvitað grunaði hann ekki neitt (því faðir hans er með eindæmum góður leikari:)
Þegar við komum heim sá hann sig svo í sjónvarpinu og það var alveg til að fullkomna daginn. Hilmar Þór og hópur af norðlenskum leikskólabörnum fór upp í Dimmuborgir í vikunni að kíkja á jólasveinana og það var verið að sýna frá því í fréttunum og Hilmar sást nokkrum sinnum. Ég benti honum á sig og honum fannst þetta ákaflega merkilegt. Þegar þessu var lokið lék hann jólasvein það sem eftir lifði dags og tók Ása amma hans virkan þátt í leiknum í hlutverki Grýlu, ekki leiðinlegt að fylgjast með þeim:)
Á morgun stefnum við svo á að setja upp smá meira jólaskraut, bjóða Höllu og Völla í mat og enda svo á blóði, svita og tárum í fótbolta í Ýdölum. Það er því eins gott að fara að halla sér.
Hafið það gott. Kv. Helga

Tuesday, December 12, 2006

Fréttir úr sveitinni

Haldið þið ekki að jólasveinninn hafi litið hér við í nótt og gefið Hilmari Þór DVD disk! Við vorum öll voðalega spennt og gekk litla manninum ekki mjög vel að sofna þegar hann hafði styllt spariskónum sínum í gluggann. Hann var hins vegar mjög glaður í morgun og nú bíð ég eftir því að hann komi heim af leikskólanum en þá á hann að fá að horfa á myndina:)
Annars hóf ég formlega þátttöku í endurbótunum í gær þegar við mæðgurnar skelltum okkur út í Nes og mér tókst að mála nokkra glugga á meðan hún svaf í vagninum sínum. Nú klæjar mig bara í puttana að halda áfram!
Dagurinn í dag hefur að mestu farið í að fara yfir myndir því við ætlum að senda Möggu og Stebba með geisladisk til Ameríku í framköllun, það hafa því rifjast upp margar góðar minningarnar:)
Mér heyrðist á mömmu í gær að þau ætli að kíkja til okkar á milli jóla og nýárs og hjálpa okkur í húsinu. Ég á því síður von á því að við skellum okkur í borgina fyrr en í janúar.
Nú þarf ég því bara heldur betur að spýta í lófana, bretta upp ermarnar og halda áfram að baka:)
Hilmar Þór hefur heldur betur verið liðtækur í bakstrinum og býst ég fastlega við því að hann verði bakari í framtíðinni, að vísu heldur hann því stöðugt fram að hann ætli að verða múrari eins og Gunnar afi og Ingi frændi. Ætli að hann sinni þá ekki bara bakstrinum í frístundum:)
Við skelltum okkur á tónleika með Eivöru Pálsdóttur í Þorgeirskirkju síðasta laugardag og hún var FRÁBÆR! Það er alveg með ólíkindum hvað hún er góð, mæli eindregið með henni! Ása passaði og það gekk mjög vel, ég verð nú að viðurkenna það að ég var frekar stressuð því ég hef aldrei farið svona lengi burtu frá Arndísi áður. Auðvitað voru það óþarfa áhyggjur í mér því það gekk eins og í sögu.
Ætli að ég verði ekki að fara að snúa mér að heimilisstörfunum, taka úr uppþvottavélinni, ganga frá þvotti.... o.s.frv. maður er jú orðin ,,vísitölufjölskylduhúsmóðir" og því nóg að gera.
Gangi ykkur vel í jólaundirbúningnum. Kv. Helga

Monday, December 11, 2006

myndir

Bara gott að frétta lífið gengur sinn vana gang mikið jóla stúss í gangi, Helga bakar og bakar, Hilmar talar um jólasveina og ég smíða í nesi (sem gengur hægt en örugglega)
við skruppum í heimsókn um daginn og Hilmar var svo þreyttur að hann sofnaði á leiðinni og svaf svo fast að hann vaknaði ekki einusinni í stiganum þegar við komum heim.:)

mbk Árni ´P og co




 Posted by Picasa

Sunday, December 03, 2006

jólin nálgast og jólasveinarnir láta sjá sig

Detti mér nú allar dauðar lýs úr höfði! Haldið þið ekki að ,,alltmúligmaðurinn" Árni Pétur hafi látið gabba sig í hlutverk jólasveinsins í gær. Staðan var sú að það forfallaðist einn sveinki í jólabaðsuppákomu í jarðböðunum í Mývatnssveig og hver er fyrsti maðurinn sem leitað er til, nú auðvitað Árni Pétur sem kann ekki að segja nei. Marinó var ekki leiður þegar hann frétti þetta og hló svo undirtók í fjöllunum:)
Annars snýst allt um jólasveina á þessu heimili í augnablikinu. Við fórum nefnilega með Hilmar Þór á Húsavík á föstudaginn þar sem verið var að kveikja á jólatréi bæjarins og sveinkarnir létu sjá sig. Askasleikir gaf sig á tal við Hilmar Þór og þá var ekki aftur snúið, nú talar hann ekki um annað en þessa frábæru karla sem ætla að fara að gefa honum í skóinn:) Það er ekki leiðinlegt að fylgjast með honum!
Svo fórum við mæðginin í aðventumessu í dag og þegar heyrðist í barni gráta á neðri hæðinni sagði hann hátt og snjallt að jesúbarnið væri niðri:) Æ hvað þessi börn geta verið frábær!
Feðgarnir tóku sig til og eru að myndast við að baka smákökur frammi í eldhúsi. Það er nú ekki til frásögu færandi nema að þegar ég leit fram á aðan sá ég Pésa hella vænum slurk af vodka út í deigið og segist hann ekki vilja fara eftir einhverjum uppskriftum! Ætli að við verðum ekki bara rallhálf alla aðventuna?? Ætli að ég verði ekki að láta þetta duga í bili því mér finnst líklegt að Hilmar Þór sé kominn á kaf ofan í hrærivélaskálina og verð að stoppa það!
Hafið það gott. Kv. Helga

Hilmar að heimsækja jólasveina




 Posted by Picasa