Saturday, October 25, 2008

Æi ég veit ekki hvaða fyrirsögn ég á að velja

Komið þið öll sæl og blessuð. Nú er ferðalaginu til Köben lokið og við öll komin heim í heiðardalinn. Ferðin var mjög skemmtileg, svona fyrir utan verðlagið sem var náttúrulega alveg út úr kú:) Gosglas á veitingastað kostaði 960 krónur svo dæmi sé tekið og gátum við ekki annað en hlegið að þessu öllu saman. Núna finnst okkur allt svo ódýrt hér heima að við eyðum eins og vitleysingar:) Keypti t.d. tveggja lítra pepsi á 99 krónur í Kaskó í gær.....fannst það svo ódýrt að ég keypti þrjár flöskur (ég sem ætlaði að fara að slaka aðeins á í gosdrykkjunni en þetta er svo asskoti ódýr drykkur að ég neyðist til að hafa hann á boðstólnum daglega í kreppunni).
Annars hefur verið frekar leiðinlegt veður hér um helgina og vonandi er þetta ekki það sem koma skal í vetur! Við fórum út með börnin á sleða í gær og klofuðum skafla upp fyrir hné sums staðar, þetta finnst mér nú barasta ekkert sniðugt í október!
Börnin eru hress og kát þessa dagana, stundum svona fullhress og hávaðasöm að okkar mati:) Arndís Inga hætti á pensillininu í gær og nú fylgjumst við vel með henni. Hún var með 9 kommur í kvöld og vonum við að það hækki ekki næstu daga því þá verðum við að fara með hana inneftir. Ef allt gengur að óskum fer hún vonandi í sína síðustu skoðun á miðvikudaginn. Svo vonum við bara að þessar blessaðar sýkingar fari að láta hana í friði hér eftir!
Annars er myrkrið alveg að fara með mig þessa dagana og get ég ekki beðið eftir því að fara að setja upp jólaljósin til að lýsa upp skammdegið. Ég er búin að ákveða að setja upp glæru jólaseríuhringina 1. nóvember og þær rauðu 1. desember...þannig að nú kveiki ég bara á kertum og tel niður:)
Jæja ætli að ég fari ekki að glápa á imbann í myrkrinu. Hafið það gott og munið að hugsa um það sem skiptir mestu máli í lífinu;)
kv. Helga Sigurbjörg

Sunday, October 12, 2008

Einelti er böl!

Á bloggrúnti mínum í kvöld rakst ég inn á síðu Hugos Þórissonar (www.hugo.is) þar sem einhver þolandi eineltis skrifar sögu sína. Ég hvet ykkur öll til að kíkja á þetta því sagan hreyfir svo sannarlega við manni og minnir okkur enn og aftur á hve hræðilegar afleiðingar einelti getur haft í för með sér. Ég held að ég ljúgi engu þegar ég segi að það sem veldur mér hvað mestu hugarangri í kennslunni er að vera viss um að enginn af mínum nemendum þurfi að ganga í gegnum það helvíti sem þessi einstaklingur hefur þurft að ganga í gegnum. Ég fer reglulega yfir eineltishringinn með börnunum, útskýri hvað einelti er, hvet þau til að láta vita ef þau lenda í eða verði vitni að einelti og tek dæmi úr eigin skólagöngu til að fræða þau og reyna að fyrirbyggja að þau lendi í einelti. Ég verð þó að viðurkenna það að stundum fyllist ég vonleysi í þessum efnum og finnst þetta ,,babl" í mér ekki skila neinu.
Annað sem ég hugsa líka um er hvað ég myndi gera ef barnið mitt yrði lagt í einelti einhvern tímann. Ég held að það sé ekkert verra til í lífinu en að horfa á barnið sitt verða félaglega einangrað og eiga enga vini. Ég held að flestir foreldrar séu sammála um það að flestir námserfiðleikar séu léttvægir í samanburði við félagslega útskúfun. Því spyr ég mig hvort við eigum að leggja ríkari áherslu á lífsleiknikennslu, náungakærleikann og spjall við börnin á kostnað hinna hefðbundnu námsgreina? Hvað finnst ykkur? Einhvern veginn finnst mér ég ekki hafa þann tíma sem ég kysi í svona umræður því námsefnið sem fara á í gegnum er oft að drekkja mér.
Það hefur mikil umræða um einelti átt sér stað í samfélaginu undanfarið og ég held að hún sé af hinu góða. Skólasamfélagið verður að nýta sér alla þá þætti sem þar koma fram til að öðlast meiri þekkingu á þessu sviði og ég væri sko alveg til í að fá aðeins yfirhalningu á þessu sviði. Ég ætla samt að hughreysta sjálfa mig með því að segja að ég tel mig sem kennara vera að reyna að gera eins vel og ég get í þessum efnum. En batnandi mönnum er best að lifa og ég held að ég gæti alveg bætt mig á þessu sviði.
Þetta helv... einelti er alltaf svo falið og tilhugsunin um að ég sé svo ,,blind" að sjá ekki einelti sem er í gangi í bekknum mínum veldur mér miklum áhyggjum.
Hana nú, nú hætti ég þessum pælingum og ætla að fara að sofa í hausinn á mér.
kv. Helga

Saturday, October 11, 2008

Börnin fögru


Posted by Picasa

Wednesday, October 08, 2008

Hitt og þetta....aðallega hitt

Jæja ætli að ég verði ekki að henda inn smá bloggi svo þið hættið að kommenta á myndirnar frá Árna Pétri;) Nei ég segi nú bara svona.
Arndís Inga er hress og kát. Haltrar aðeins en er alveg að verða góð (það höldum við alla vega). Ég fer með hana í skoðun á föstudaginn og þá sjáum við hvað gerist. Alla vega er á meðan er;)
Við höfum skipst á að vera heima með hana þessa viku og svo var Ingibjörg svo góð að bjóða henni að vera fram að hádegi í morgun þannig að við gátum bæði skroppið í vinnuna. Takk kærlega fyrir það, þú ert bara yndisleg:)
Við erum líklega að fara til Köben um þarnæstu helgi....ó já við hlustum ekki á krepputalið hér á bæ:) Nei úff ég verð nú að viðurkenna það að við erum full efasemda um skynsemina í þessu flakki en við vorum búin að bóka áður en landið fór á hvolf og því held ég að við drífum okkur bara. Að vísu ætlum við að ,,funda" með samferðarfólki okkar í kvöld og ákveða hvað við ætlum að gera. Að sjálfsögðu förum við ekki ef Arndísi Ingu hrakar en nú reynum við að hugsa sem minnst um að það geti gerst, er Pollýanna ekki vel við hæfi í þessum efnum?
Ætli að Pollýanna verði ekki vinsælasta stúlkunafnið á stúlkum sem fæðast í dag?
Ég verð að viðurkenna það að hafa ekki hlustað mikið á fréttir undanfarið. Finnst það einhvern veginn ekki hafa neitt upp á sig. Ég veit hins vegar að allt er á leið til andskotans og reyni bara að hugsa um eitthvað fallegt. Eitt er víst að sama hvað ég reyni þá tekst mér ekki að finna neitt jákvætt við blessaða bankastjórana sem hafa þegið yfir 60 milljónir á mánuði undanfarin ár! Er hægt að reka fyrirtæki með hagnaði sem borgar annað eins í forstjóralaun? Maður spyr sig.
Nóg um það.
Á morun er saumaklúbbur og það er alltaf gaman. Ég fer þangað sama hvort krónan veikist eða styrkist, ef olían svífur upp þá hjóla ég bara:)
Ætli að það sé ekki bara við hæfi að enda þennan pistil þá því að minna okkur öll á hugsa um það sem mestu máli skiptir í þessu blessaða lífi, BÖRNIN OKKAR! Að eiga heilbrigð og yndisleg börn er ómetanlegt og ekki hægt að meta til fjár. Við erum rík á meðan við eigum þau!
Þar til næst....
kv. Helga Sigurbjörg

Friday, October 03, 2008

Nokkarar myndir

Hilmar þór á vélsleða í kvöld.. (alveg hæðst ánægður)

Arndís Inga afmælisstelpa að blása á kertin sín


Afmælisstelpa


Hilmar að máta crossskóna hans Jóhanns



Arndís aðeins að ræða málin

Fagur er DALURINN

Meiri afmælisblástur!

Litla prinsessan nývöknuð eftir eftir aðgerð. Ekki sátt!

Eins og þið ónytjungarnir áttið ykkur kanski á þá set ég inn myndir en ekki helga Þannig að engin comment = engar myndir ;)
sagan segir: ef ég pósta (sem er ekki oft)þá eru engin comment en ef helga bloggar þá er fullt fullt
Bestu kveðjur Árni P og co

Staðan í dag

Jæja af okkur er það helst að frétta að við segulómunina í gær kom í ljós að það var mikil vökvasöfnun í fætinum sem benti til sýkingar. Hún var því drifin í uppskurð í morgun til að tappa af og taka sýni í ræktun. Þegar þeir opnuðu fundu þeir hins vegar engan vökva en tóku til öryggist sýni úr beinunum og liðnum. Við fáum út úr þeim sýnum eftir 2-3 daga en þangað til verður hún sett á sýklalyf í æð til öryggis ef einhver sýking er hugsanlega til staðar. Við erum því nokkuð bjartsýn í dag en á móti finnst okkur hálfgremjulegt að vita ekki hvað amar að. Þeim finnst þetta mjög furðulegt og dettur einna helst í hug bólgur í vöðvum sem sjást ekki en það kemur vonandi í ljós innan fárra daga.
Við verðum sem sagt hér á spítalanum yfir helgina og þá verður staðan tekin á nýjan leik. Arndís Inga er hress og kát en bara dálítið vönkuð eftir svæfinguna. Árni Pétur skellir sér austur í sveit og í vinnuna en ætli að við fjölmennum svo ekki bara inn á Akureyri á morgun og eyðum helginni hérna.
Læt þetta duga í bili. Góða helgi.
kv. Helga og Arndís Inga

Wednesday, October 01, 2008

Staðan hér á bænum...

er bara nokkuð góð. Arndís Inga fór í skoðun í morgun sem ekkert kom út úr og búið er að ákveða að segulómskoða hana á morgun til að komast að því hvað er að hrjá litlu prinsessuna. Hún ber sig vel, er hress og kát en haltrar og finnur til í mjöðminni. Við erum því bara fegin að þau ákváðu að drífa í því að ómskoða hana því það er ekki skemmtilegt að vita ekki hvað er að.
Við héldum upp á afmælið hennar í gær og var það voða skemmtilegt. Hún var rosa ánægð með daginn, fékk fullt af gestum og pökkum og svo finnst báðum börnunum kökur og sælgæti óskaplega gott þannig að þau voru sátt.
Við tókum nokkrar myndir og nú fara þær örugglega að detta hér inn.
Ég læt vita hvað kemur út úr skoðuninni.
Kv. Helga