Síðustu metrarnir....






Ætli að það sé ekki kominn tími á nýtt blogg? Ég held það barasta:)
Af framkvæmdum er það helst að frétta að það er ALLT að gerast og styttist óðfluga í flutning...jibbí! Við fengum heilan vinnuflokk í heimsókn um síðustu helgi og voru hendur heldur betur látnar standa fram úr ermum....settar upp hillur í skápa, málað, tengd eldhústæki, flísalagt, borðað, passað, geyspað o.s. frv. (þúsund þakkir Stebbi, Magga, mamma og pabbi:)Við vorum svo heppin að einn vinnumaðurinn hætti við að fara heim og hefur hann heldur betur fengið að svitna, Hreiðar gerði nefnilega þau mistök kom norður í ,,sumarfrí" og greyið hefur hvorki fengið að kynnast sumrinu né fríinu. Þeir eru sem sagt langt komnir með parketið á stofuna, klára líklega á morgun og í dag skellt ég mér í mósaikflísalögn í eldhúsinu og mín er barasta rosa ánægð með útkomuna:) aldrei að vita nema ég sýni ykkur útkomuna á morgun þegar ég verð búin að fúga...að vísu held ég að það verði enn skemmtilegra að sýna myndir þegar ég verð búin að þrífa eldhúsið... sjáum til með það. Nú tökumst við hjónaleysin aðallega á um það hvenær við komum til með að flytja, ég held því fram að það verði fljótlega eftir helgi en Árni Pétur segir tvær vikur. Nú set ég því bara í ,,túrbógírinn" og hespi þessu af því ég veit ekkert leiðinlegra en að hafa rangt fyrir mér!
Börnin eru alltaf söm við sig. Hilmar Þór er orðinn svo stór og duglegur og tekur virkan þátt í framkvæmdunum... pússar og sópar gólfin og talar um að hann sé vinnumaður eins og pabbi hans. Arndís Inga sýnir framkvæmdunum mikinn skilning og er bara ánægð að láta ömmurnar passa sig og fá smá frí frá mömmu gömlu. Ég held hins vegar að við verðum öll mjög ánægð þegar blessuðum framkvæmdunum lýkur.
Jæja ætli að ég fari ekki að halla mér, langur dagur á morgun með fúgu og skrúbberíi.
Góða nótt. Kv. Helga